Fara yfir á efnissvæði
Opna/loka valmynd
Sterkari út í lífið Heimilisfriður COVID-19 527-7600
Sálfræðingar Höfðabakka

Að lifa af sóttkví. Sóttkvíarráð frá sóttkvíarþega.

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur er nýjasti starfsmaðurinn okkar. Fyrsti dagurinn í vinnunni varð hins vegar fyrsti dagurinn í sóttkví 🙂

 1. Rútínan skiptir mjög miklu máli.
  Það er auðvelt að fara seinna að sofa og snúa sólahringnum við í sóttkví. Börn elska fyrirsjáanleika og hann getur dregið verulega úr kvíða. Mestu máli skiptir að gera daginn viðráðanlegan, ef við ætlum okkur of mikið og flókið þá er hætta á að það falli um sjálft sig. Því fyrr sem fjölskyldan kemur á dagsskipulagi, því betra fyrir alla. Sem dæmi má nefna:
  * Vakna á svipuðum tíma/fara að sofa á svipuðum tíma
  * Borða saman allar máltíðir dagsins um svipað leyti
  * Setja upp t.d. leiksstofur, heimanáms-tíma, hreyfitíma og baðtíma.
 2. Nýta tímann vel.
  Ef við lítum á björtu hliðarnar þá skapast tími sem annars er ekki til staðar í sóttkví. Þá getur verið sniðugt að nýta tímann í verkefni sem annars sitja á hakanum. Einnig býður sóttkví upp á góðar aðstæður til þess að setja sér mælanleg markmið þ.e. lítið sem truflar, aðstæðurnar breytast ekki og á tveimur vikum getum við komið miklu í verk. Sem dæmi má nefna:
  * læra að standa á höndum
  * kenna börnunum að búa til gogg
  * taka til í geymslunni
  * prjóna peysu
  * lesa bók/hlusta á hljóðbók
  * klára stórt púsl
 3. Hreyfing.
  Inniloftið getur kallað á meiri kyrrsetu, skjánotkun og minni hreyfingu. Súrefnisleysi gerir okkur þreyttari, en þá er einmitt ástæða til þess að nýta ímyndunaraflið, finna leiðir til þess að hreyfa sig og fá ferskt loft. Hreyfing eykur gleðiboðefni í heila, kallar á hollari matarvenjur, gerir okkur þreyttari og auðveldar okkur þar af leiðandi að halda góðri rútínu. Svo ekki sé talað um að hreyfing getur drepið tímann. Í hinu daglega amstri kvarta margir undan tímaleysi í tengslum við hreyfingu, nú er aldeilis annað uppi á teningnum 😉Dæmi um hreyfingu í sóttkví:
  * Útihlaup á afskekktum svæðum.
  * Rösk ganga.
  * Æfingar með eigin líkamsþyngd t.d. hnébeygjur, armbeygjur og magaæfingar.
  * Sippubönd geta reynst vel til að hækka púlsinn.
  * Teygjur .
  * Á Youtube eru til fjöldin allur af líkamsræktartímum sem fjölskyldan getur spreytt sig á saman.
  * Crossfit Reykjavík býður upp á "heima-æfingar" en það má finna nýja æfingu á heimasíðu þeirra á hverju kvöldi eftir kl 21.00.
 4. Skapa góðar stundir.
  Það er gríðarlega auðvelt í sóttkví að gera alla daga að laugardögum þ.e.a.s. leggjast upp í sófa með nammi og góða þáttaröð á Netflix. Aftur á móti er það einmitt það sem við gerum sjaldan og er ekki sjálfsagt á hverjum degi sem verður eftirsóknavert. Það þarf því að vanda sig við að halda í spennu og gleði og fá ekki nóg af því sem við þó getum gert. Hér er tímastjórnun mikilvægt tól og að skipuleggja góð „treat“. Sem dæmi má nefna:
  * Elda sérstaklega huggulegan mat um helgar.
  * Halda spilakvöld tvisvar í viku, jafnvel á þeim dögum sem slíkt væri ekki sjálfsagt á „utan sóttkvíar" dögum.
  * Gera eitt húsverk á hverjum degi.
  * Taka daglega tíma í heimavinnu barnanna og sleppa henni um helgar.
 5. Halda sama skítastuðli.
  Það er álag á heimili þar sem öll fjölskyldan er heima allan daginn. Við verðum pínum andlaus og þá er auðvelt að bíða bara með tiltekt og uppvask. Það er þó aldrei mikilvægara að halda ákveðnu hreinlæti í lagi, tileinka sér handþvott, þrífa yfirborðsfleti vel og spritta. Sumir gefast upp á að reyna að halda hreinu á meðan aðrir detta í hálfgerðar hreinlætismaníur. Ágætt er að hafa þetta á bak við eyrað og að halda svipuðum viðmiðum og venjan er. Þá er þetta frábært tækifæri til þess að æfa börnin í frágangi og þrifum. Góðar hugmyndir varðandi hreinlætið:
  * Byrja og enda daginn á tiltekt og þrifum.
  * Taka fyrir eitt rými í einu, endurskipuleggja, sortera og þrífa.
  * Bóna gólf getur verið tímafrek iðja en prýðis skemmtun í sóttkví.
  * Þrifa glugga sömuleiðis.
 6. Parsambandið.
  Það reynir verulega á pör og foreldra að fara saman í sóttkví, svo ekki sé talað um með börn 😉Gott er að hlúa vel að sambandinu, vanda sig í samskiptum og ræða um þá álagspunkta sem eru fyrirsjánlegir. Algengasti vandi para er misskilningur sem byggir á því að parið talar ekki nægilega mikið saman. Í sóttkví er aldeilis hægt að nýta tímann í spjall. Ég mæli með því við öll pör að halda vikulega stöðufundi, fara yfir vikuna sem leið og vikuna sem framundan er. Í sóttkví geta slíkir fundir reynst ennþá mikilvægari. Hugmyndir að því hvernig hlúa má að sambandinu í sóttkví:
  * Gefið hvort öðru einkatíma- þar sem annar aðilinn fær frið til þess að sinna sér.
  * Gefið ykkur paratíma- þar sem parið gerir eitthvað saman innan „sóttkvíar-marka“ t.d. spila, hlusta saman á hljóðbók, elda góðan mat.
  * Haldið reglulega stöðufundi.
  * Nýtið tímann í samtalið, kúr og knús

Tengt efni: